Aðalfundur Meiðs 2015 Til baka í fundagerðir
Skógargerði 18. júlí 2015
1. Skýrsla stjórnar
Hlynur Bragason, fráfarandi formaður, flutti skýrslu stjórnar. Í máli hans kom fram að helstu framkvæmdir síðasta árs voru smíði pallsins og garðhússins í tóftinni við húsið. Þetta voru líka stærstu útgjaldaliðirnir en þessar framkvæmdir voru upp á rúmar 500 þúsund.
2. Reikningar ársins bornir undir atkvæði
Ívar Ásgeirsson, fráfarandi gjaldkeri, fór yfir reikninga félagsins. Hann benti á að rafmagnsreikningur hefði lækkað milli ára sem er ánægjulegt. Það sama gerðist árið áður og Ívar nefndi að nýr hitakútur og betri einangrun í kjallaranum eftir endurbætur þar ættu þátt í því að lækka rafmagnskostnað. Auk þess eru nú betri ofnar í húsinu og gestir hússins fara almennt að ábendingum í húsreglum og hafa ofna á lágum hita þegar þeir ganga frá húsinu. Reikningar félagsins voru samþykktir með öllum greiddum atkvæðum.
3. Ákvörðun félagsgjalda og leigugjalds
Stjórn lagði til óbreytt félagsgjöld og leigugjöld og var það samþykkt með þorra atkvæða.
Félagsgjald fyrir árið 2016 verður kr. 5.500 fyrir 25-39 ára og kr. 8.000 fyrir 40 ára og eldri.
Leiga fyrir árið 2016 verður óbreytt frá fyrra ári og er sem hér segir:
júní, júlí og ágúst: kr. 35.000 vikan
aðrir mánuðir: kr. 25.000 vikan
helgarleiga: kr. 12.500
Helgarleiga er ekki í boði nema vikan að helginni sé laus. Þetta þarf sérstaklega að hafa í huga yfir sumartímann þegar mest ásókn er í húsið.
4. Kosning stjórnar og skoðunarmanna reiknings
Fyrir fundinn hafði stjórn tilkynnt að hún hygðist láta af störfum eftir alllanga stjórnarsetu. Á fundinum var lögð fram tillaga um nýja stjórnarmenn og komu engin mótframboð fram. Tillagan var samþykkt og telst nýja stjórnin því rétt kjörin. Hana skipa:
Björn Sveinsson
Helgi Gíslason
Helgi Ómar Pálsson
Hermann Hermannsson
Ingigerður Sólveig Sverrisdóttir
Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum. Ragnheiður Guðnadóttir var kosin skoðunarmaður reikninga – hún hefur sinnt því frá stofnun félagsins. Fráfarandi stjórn fékk þakkir frá fundarmönnum fyrir gott starf á liðnum árum.
5. Breytingar á samþykktum félagsins
Fráfarandi stjórn hafði lagt til og kynnt fyrir félagsmönnum breytingar á fjórum liðum í stofnsamþykktum félagsins (liðir 3.2, 3.4, 4.3 og 4.4). Voru þessar breytingar lagðar fram í heild og samþykktar samhljóða. Þessir liðir hljóða nú svo:
3.2. Aðalfundur er haldinn í apríl-maí ár hvert og boðar stjórn til hans í samráði við ættarráð með minnst fjögurra vikna fyrirvara. Ættarmótsár er fundurinn haldinn í tengslum við ættarmótið. Þá er einnig kosin framkvæmdastjórn til næstu fimm ára.
3.4. Á aðalfundi skal flutt skýrsla stjórnar um starfsemi félagsins á liðnu ári, endurskoðaðir reikningar lagðir fram, skoðunarmenn reikninga kosnir, fjallað um lagabreytingar, kosið í fastanefndir og teknar ákvarðanir um stefnu og starf félagsins til næsta aðalfundar.
4.3. Á aðalfundi ættarmótsár eru kosnir 3 menn og 2 varamenn í framkvæmdastjórn til næstu 5 ára. Þar til öðruvísi kann að verða ákveðið, skal 1 stjórnarmaður vera fyrir hvert aðalbúsetusvæði ættarinnar sem eru Austurland, Norðurland og Suðvesturland. Stjórnarmenn skulu skiptast milli ættkvísla þannig að í stjórn sitji ekki fleiri en einn úr neinni ættkvísl.
4.4. Framkvæmdastjórn skiptir sjálf með sér verkum. Hún starfar samkvæmt ákvörðunum ættarráðs og aðalfundar og er ábyrg gagnvart þessum aðilum. Stjórnarseta er sjálfboðaliðastarf og engin hlunnindi fylgja setu í stjórn s.s. forgangur að leigu eða afnot hússins án endurgjalds.
6. Framkvæmdir framundan
Fráfarandi stjórn gerði grein fyrir þeim viðgerðum sem brýnt þykir að ráðast í, þ.e. viðgerðir á ytra byrði hússins. Hér er um að ræða múrviðgerðir á norðurvegg hússins, blikkklæðningu á þakbrúnir, málningarvinnu eftir þörfum og svo rykbindingu eða múrvinnu á tóftarveggjum. Jafnframt var lagt til að áfram verði unnið að öðru viðhaldi innanhúss og þar fylgt eftir niðurstöðum ástandskönnunar sem gerð var fyrir nokkrum árum. Ljóst er að viðgerðir á veggjum og þaki verða dýrar. Til að reyna að mæta þeim kostnaði bar Hlynur Bragason upp tillögu um að stjórn væri heimilt að rukka tvöfalt félagsgjald næsta ár. Tvöfalda félagsgjaldið yrði fyrir 40 ára og eldri og valfrjálst og aðeins í þetta eina sinn. Var tillagan samþykkt með þorra greiddra atkvæða.
7. Önnur mál
Nokkur umræða var um þá tilraun fráfarandi stjórnar að auglýsa húsið til leigu á airbnb – vefnum, þ.e. að auglýsa húsið til leigu fyrir (erlenda) ferðamenn. Fólk spurði um praktísk atriði svo sem leyfi, þrif og aðra umsjón með þess konar leigu sem er auðvitað annars konar en verið hefur. Lagt var til að fela næstu stjórn þetta mál og umræðu um það. Ólafur Skúli Indriðason vildi kanna hug fundarmanna til þess að fela málið næstu stjórn. Var loks samþykkt með þorra atkvæða að setja málið í hendur nýkjörinnar stjórnar en greinilegt var að allmargir fundarmenn voru nokkuð tortryggnir gagnvart þessari nýbreytni í leigu hússins.
Ragnhildur Indriðadóttir nefndi hugmynd sína um að setja fleiri myndir af Skógargerðissystkinum upp inni í húsinu – hún hefur nefnt þetta áður og tóku fundarmenn vel í þessa tillögu.
Nína Helgadóttir nefndi að endurnýja þyrfti dýnur í rúmum uppi (gömlu rúmunum) og auk þess væri gott að hafa samanfellanlega stóla til taks innanhúss.
Ólafur Mixa nefndi að sér þætti leigan á húsinu lág en fundurinn hafði samþykkt óbreytta leigu næsta ár eins og áður var nefnt. Í framhaldi af því kom hugmynd um gull, silfur og brons árgjöld frá Gísla Hermannssyni og hugmynd um hollvinasamtök Skógargerðis frá Hlyni Ingimarssyni (manni Ragnheiðar Guðnadóttur) – allt nefnt sem leiðir til að afla félaginu aukins fjár. Hróar Húgosson spurði um leigu utan ættar og Ívar svaraði að hún væri talsvert hærri en sú sem félagsmenn borga.
Sigríður Þorvaldsdóttir minnti á að uppfæra þyrfti ættartalið – það væri brýnt að gera innan a.m.k. 5 ára en eftir það nýtist Skógargerðisbók ekki lengur til að finna nýja félagsmenn. Var nýrri stjórn falið að skoða það mál.
Sigríður Þorvaldsdóttir
fráfarandi ritari Meiðs