Ættarmót í Skógargerði 18. 7. 2015.
Ávarp. Dagný Marinósdóttir.
Ágæta Skógargerðisætt og áhangendur
Mörgum í þessari ætt er það þvert um geð að tala mikið um sína eigin persónu, sínar fyrirætlanir eða bara tala yfirleitt og ég vil taka það fram strax, að trú mínum uppruna, sóttist ég ekki eftir því að fara að tala hér í kvöld.
En þegar frænka okkar, Ragnheiður Hermannsdóttir, hringdi og bað mig að halda sömu ræðuna og ég var með á ættarmótinu1995, fyrir 20 árum, fannst mér það svo góð hugmynd að ég gat ekki sagt nei. En þar sem ég var lögst í mitt árlega landshornaflakk þá hafði ég þessa gömlu ræðu ekki handbæra, því miður.
Mig minnir að hún hafi snúist um sérstök ávörp og ýmsa formála sem maður ólst upp við og margir kannast við og þau ættareinkenni að nota sem minnst, og helst alls ekki, orðin já og nei, varast nákvæmar tímasetningar, gefa lítið upp um fyrirætlanir, svara seint eða alls ekki. Ég man að ég tók dæmi af mínum krökkum sem þá voru út um hvippinn og hvappinn í skólum og vinnu og það vafðist mjög fyrir þeim á jólaföstunni að svara þessari einföldu spurningu minni: - Ætlar þú að vera hér heima um jólin? -
Svör t.d.: - Ég er nú ekkert búin(n) að ákveða það. – Það er nú ekki hægt að segja til um það núna. – Það fer nú eftir ýmsu. – Það verður nú bara að koma í ljós. – Það er ekki ólíklegt. – Og í best falli: - Ætli það ekki kannski.-
En annars er þessi gamla ræða í Ættarpósti Indriða Gíslasonar og vísast hér með til hennar þar.
Hin ættgenga svaratregða erfist þó enn. Maður kallar nokkrum sinnun í barnabarnið en fær ekkert svar. Maður fer á vettvang og segir: “Heyrirðu ekki að ég er að kalla á þig?”
Barnabarnið lítur seinlega upp. “Jú.”
“Af hverju svararðu þá ekki, elskan?”
“Amma, ég var annað að gera og gat hvort sem er ekki komið strax.”
-Hér inni er margt fólk sem ég þekki ekki, af yngri kynslóðinni. Ég get heldur ekki ætlast til þess að það þekki mig og ætla þess vegna, þó að mér sé það þvert um geð, að segja nokkur deili á sjálfri mér.
Ég er sem sagt, eins og fram hefur komið, Dagný Marinósdóttir og Þórhöllu Gísladóttur frá Skógargerði, elst af 9 systkinum, alin upp á Valþjófsstað í Fljótsdal og í Vallanesi á Völlum þar sem faðir minn var prestur og seinna á Sauðanesi á Langanesi. Þar bjó ég í 30 ár en lenti svo suður og er þar enn.
Ég var í farskóla í Fljótsdal sem barn, síðan 3 vetur í Alþýðuskólanum á Eiðum og þá 4 vetur í Kennaraskóla Íslands í Reykjavík þar sem Indriði Gíslason kenndi mér íslensku og fleira og mér er ljúft og skylt að taka það fram að hann var bæði góður og skemmtilegur kennari.
Ég hef svo verið grunnskólakennari mest alla ævi og er nú orðin þvílíkur forngripur að forstöðumaður Þjóðháttadeildar Þjóðminjasafnsins er stöðugt að senda mér spurningalista um allt milli himins og jarðar. Hann álítur að ég hafi lifað tímana tvenna og hefur þar auðvitað nokkuð til síns máls. Hann sendi mér t.d. í vetur spurningar um ömmur mínar í tilefni af kvennaári.
“Áfram konur,” segir litla Dögun Rós, barnabarnabarnið mitt, tæplega tveggja ára, og með fullri virðingu fyrir öllum þeim merkilegu körlum sem ætt þessa prýða, langar mig nú að minnast örlítið á merkilegar konur.
Spurt var hvaða arf ömmurnar hefðu gefið afkomendum sínum. Ég athugaði báðar ömmur mínar og fjórar langömmur og þó að þær kæmu úr ólíku umhverfi og byggju við ólík kjör, sýndist mér mikill samhljómur í því sem þær miðla afkomendum sínum; góðar gáfur, kjarkur, dugnaður, æðruleysi, kærleikur og lífsgleði byggð á sterkri trú á Guð, forsjón hans og handleiðslu. Og þessi góði arfur er þarna enn, afkomendurnir þurfa bara að gefa sér tíma til að meðtaka hann.
Amma mín, Dagný Pálsdóttir, húsfreyja hér í Skógargerði í 60 ár, var fædd 4.mars 1885 á Hólum í Hornafirði, yngst sinna systkina og alin upp á hálfgerðum hrakningi milli bæja hér á Héraði. Hún fór í Kvennaskólann á Blönduósi og á saumanámskeið til Reykjavíkur og vann sjálf fyrir sinni skólavist. Hún eignaðist 13 börn og ekkert þeirra dó, sem er athyglisvert á þeim tíma, hún bjó í fjárhúsi þegar bærinn hennar brann, hún mjólkaði kýrnar, bjó til allan mat, bakaði allt brauð, saumaði öll föt, spann og prjónaði á alla ættina. Hún kenndi börnum sínum að lesa, siðaði þau og uppfræddi og hún hugsaði um Laugu, þroskahefta systur afa, alla hennar ævi.
Í Skógargerði voru, í minni barnæsku, öll gólf hvítskúruð og mottur við dyr og stiga. Undir stiganum upp í baðstofu lá Tryggur gamli á hreinum, samanbrotnum strigapoka. Ég sá ömmu aldrei kjassa hann neitt en hún leyfði honum að liggja þarna af því að hann var orðinn gamall og kulvís.
Annars voru hundar aldrei hafðir inni í íbúðarhúsum á þeim tíma.
Ekki veit ég hvernig hún amma komst yfir að gera allt sem hún gerði. Hún hlýtur að hafa verið afburða verkmanneskja og kunnað vel að skipuleggja tíma sinn. Hún las líka og hlustaði á útvarpið, fylgdist með öllum fréttum, kunni veðurspána á hverjum degi orðrétt og vissi alla skapaða hluti svo að það var varla einleikið.
Ég man eftir ömmu í svörtum peysufötum með hvíta silkislaufu og skotthúfu yfir ljósu hári í löngum, þykkum fléttum, stór, gráblá augu nokkuð hvöss í tilliti.
Ég man líka eftir henni í síðum léreftskjól með stóra svuntu, hvorutveggja heimasaumað og ég man eftir henni með skýluklút og fjósasvuntuna.
- Margrét Ólafsdóttir langamma, móðir Dagnýjar ömmu, var fædd 27. apríl 1839 suður í Meðallandi, elst 14 systkina. Hún fluttist hingað austur 1886 og lagði þar með grundvöllinn að stórum hluta Skógargerðisættarinnar.
Helgi Gíslason eldri á Helgafelli segir fallega frá Margréti, ömmu sinni, í Fellamannabók og Sólrún á Krossi, ömmubarn hennar, skrifar um hana merkilega grein í Múlaþing 1971. Þar segir m.a. að Margrét langamma hafi verið glæsileg kona, einörð og sköruleg, glaðlynd, spaugsöm, hreinlynd og bjartsýn og vel stillt, afkastamikil við alla útivinnu og afburðadugleg og jafnvíg á alla ullarvinnu, listfengur vefari.
Hún eignaðist 13 börn. Af þeim komust 8 til fullorðinsára. Fjórum sinnum lét hún dætur sínar heita Agnes. Tvær lifðu og tvær dóu. Agnes er móðurnafn Páls langafa. Það var ekkert verið að gefast upp við hlutina.
- Ólöf Margrét Helgadóttir, langamma, móðir Gísla afa í Skógargerði, var fædd á Geirólfsstöðum í Skriðdal 15. júní 1853.
Hún fer að búa með Helga langafa hér í Skógargerði 1882 í miklum harðindum og köldum árum. Hún eignaðist 8 börn.
Indriði segir í Skógargerðisbók að Ólöf langamma hafi verið greind kona og vel að sér til munns og handa, skáldmælt og söngvin.
Af myndum að dæma hefur hún einnig verið fríð og falleg kona.
Hún var líka fróðleikskona mikil eins og móðir hennar, Margrét á Geirólfsstöðum, langalangamma mín.
Ég var að fletta Þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar núna á dögunum norður á Langanesi. Þar eru þessar konur á heimildamannaskrá:
Margrét Sigurðardóttir á Geirólfsstöðum.
Margrét Ólafsdóttir, Krossi, Fellum.
Ólöf Helgadóttir, Skógargerði.
Margrét Pálsdóttir frá Fossi á Síðu.
Ólafía Pálsdóttir frá Fossi á Síðu.
Tvær þær síðastnefndu eru systur Dagnýjar í Skógargerði, augljóslega.
Og það er ekkert smáræði sem Sigfús hefur eftir þessum konum. Þar eru merkir draumar, dulrænir atburðir, þulur og kvæði, fróðleikur og speki að ógleymdum hetjusögum af Hallgrími í Sandfelli, hinum mikla ættföður.
Margrét Ólafsdóttir átti gamalt handrit af Vitrun séra Magnúsar á Hörgslandi.
Það er bæði í lausu máli og bundnu og minnir á Jóhannesarguðspjall. Það er í Þjóðsögum Sigfúsar.
Sigfús hefur haft sérstakt dálæti á Margréti á Geirólfsstöðum, nefnir hana alltaf fróðleiks- og gáfukonu og vitnar til hennar a.m.k 17 sinnum í Þjóðsögunum. Þessi lýsing á henni er þar: Margrét Sigurðardóttir á Geirólfsstöðum var einkar vitur kona, fróð, skemmtin og höfðingleg, ekki alls kostar fyrirleitin ef hún vildi hafa sitt fram og hræddist hvorki drauga né valdsmenn. Hún reið um sveitir árið 1903, kom á marga bæi og kvaddi vini sína, reið heim, lagðist þegar og dó – hún Margrét langalangamma.
Ég vil hvetja alla viðstadda til að lesa sér til um allar þessar merku konur og líta í Þjóðsögur Sigfúsar einnig.
Svo enda ég þetta spjall á einni þulu sem höfð er eftir Margréti Pálsdóttur í Þjóðsögunum:
Karl klifraðist upp bratta brekku
bar sauð og kú dauða
hest og hundrað fiska
hvalbein og sjö steina
nafar og nýtt skip
árar og stýri.
Hvar finnur þú þann karl
sem meira getur borið?
Ávarp. Dagný Marinósdóttir.
Ágæta Skógargerðisætt og áhangendur
Mörgum í þessari ætt er það þvert um geð að tala mikið um sína eigin persónu, sínar fyrirætlanir eða bara tala yfirleitt og ég vil taka það fram strax, að trú mínum uppruna, sóttist ég ekki eftir því að fara að tala hér í kvöld.
En þegar frænka okkar, Ragnheiður Hermannsdóttir, hringdi og bað mig að halda sömu ræðuna og ég var með á ættarmótinu1995, fyrir 20 árum, fannst mér það svo góð hugmynd að ég gat ekki sagt nei. En þar sem ég var lögst í mitt árlega landshornaflakk þá hafði ég þessa gömlu ræðu ekki handbæra, því miður.
Mig minnir að hún hafi snúist um sérstök ávörp og ýmsa formála sem maður ólst upp við og margir kannast við og þau ættareinkenni að nota sem minnst, og helst alls ekki, orðin já og nei, varast nákvæmar tímasetningar, gefa lítið upp um fyrirætlanir, svara seint eða alls ekki. Ég man að ég tók dæmi af mínum krökkum sem þá voru út um hvippinn og hvappinn í skólum og vinnu og það vafðist mjög fyrir þeim á jólaföstunni að svara þessari einföldu spurningu minni: - Ætlar þú að vera hér heima um jólin? -
Svör t.d.: - Ég er nú ekkert búin(n) að ákveða það. – Það er nú ekki hægt að segja til um það núna. – Það fer nú eftir ýmsu. – Það verður nú bara að koma í ljós. – Það er ekki ólíklegt. – Og í best falli: - Ætli það ekki kannski.-
En annars er þessi gamla ræða í Ættarpósti Indriða Gíslasonar og vísast hér með til hennar þar.
Hin ættgenga svaratregða erfist þó enn. Maður kallar nokkrum sinnun í barnabarnið en fær ekkert svar. Maður fer á vettvang og segir: “Heyrirðu ekki að ég er að kalla á þig?”
Barnabarnið lítur seinlega upp. “Jú.”
“Af hverju svararðu þá ekki, elskan?”
“Amma, ég var annað að gera og gat hvort sem er ekki komið strax.”
-Hér inni er margt fólk sem ég þekki ekki, af yngri kynslóðinni. Ég get heldur ekki ætlast til þess að það þekki mig og ætla þess vegna, þó að mér sé það þvert um geð, að segja nokkur deili á sjálfri mér.
Ég er sem sagt, eins og fram hefur komið, Dagný Marinósdóttir og Þórhöllu Gísladóttur frá Skógargerði, elst af 9 systkinum, alin upp á Valþjófsstað í Fljótsdal og í Vallanesi á Völlum þar sem faðir minn var prestur og seinna á Sauðanesi á Langanesi. Þar bjó ég í 30 ár en lenti svo suður og er þar enn.
Ég var í farskóla í Fljótsdal sem barn, síðan 3 vetur í Alþýðuskólanum á Eiðum og þá 4 vetur í Kennaraskóla Íslands í Reykjavík þar sem Indriði Gíslason kenndi mér íslensku og fleira og mér er ljúft og skylt að taka það fram að hann var bæði góður og skemmtilegur kennari.
Ég hef svo verið grunnskólakennari mest alla ævi og er nú orðin þvílíkur forngripur að forstöðumaður Þjóðháttadeildar Þjóðminjasafnsins er stöðugt að senda mér spurningalista um allt milli himins og jarðar. Hann álítur að ég hafi lifað tímana tvenna og hefur þar auðvitað nokkuð til síns máls. Hann sendi mér t.d. í vetur spurningar um ömmur mínar í tilefni af kvennaári.
“Áfram konur,” segir litla Dögun Rós, barnabarnabarnið mitt, tæplega tveggja ára, og með fullri virðingu fyrir öllum þeim merkilegu körlum sem ætt þessa prýða, langar mig nú að minnast örlítið á merkilegar konur.
Spurt var hvaða arf ömmurnar hefðu gefið afkomendum sínum. Ég athugaði báðar ömmur mínar og fjórar langömmur og þó að þær kæmu úr ólíku umhverfi og byggju við ólík kjör, sýndist mér mikill samhljómur í því sem þær miðla afkomendum sínum; góðar gáfur, kjarkur, dugnaður, æðruleysi, kærleikur og lífsgleði byggð á sterkri trú á Guð, forsjón hans og handleiðslu. Og þessi góði arfur er þarna enn, afkomendurnir þurfa bara að gefa sér tíma til að meðtaka hann.
Amma mín, Dagný Pálsdóttir, húsfreyja hér í Skógargerði í 60 ár, var fædd 4.mars 1885 á Hólum í Hornafirði, yngst sinna systkina og alin upp á hálfgerðum hrakningi milli bæja hér á Héraði. Hún fór í Kvennaskólann á Blönduósi og á saumanámskeið til Reykjavíkur og vann sjálf fyrir sinni skólavist. Hún eignaðist 13 börn og ekkert þeirra dó, sem er athyglisvert á þeim tíma, hún bjó í fjárhúsi þegar bærinn hennar brann, hún mjólkaði kýrnar, bjó til allan mat, bakaði allt brauð, saumaði öll föt, spann og prjónaði á alla ættina. Hún kenndi börnum sínum að lesa, siðaði þau og uppfræddi og hún hugsaði um Laugu, þroskahefta systur afa, alla hennar ævi.
Í Skógargerði voru, í minni barnæsku, öll gólf hvítskúruð og mottur við dyr og stiga. Undir stiganum upp í baðstofu lá Tryggur gamli á hreinum, samanbrotnum strigapoka. Ég sá ömmu aldrei kjassa hann neitt en hún leyfði honum að liggja þarna af því að hann var orðinn gamall og kulvís.
Annars voru hundar aldrei hafðir inni í íbúðarhúsum á þeim tíma.
Ekki veit ég hvernig hún amma komst yfir að gera allt sem hún gerði. Hún hlýtur að hafa verið afburða verkmanneskja og kunnað vel að skipuleggja tíma sinn. Hún las líka og hlustaði á útvarpið, fylgdist með öllum fréttum, kunni veðurspána á hverjum degi orðrétt og vissi alla skapaða hluti svo að það var varla einleikið.
Ég man eftir ömmu í svörtum peysufötum með hvíta silkislaufu og skotthúfu yfir ljósu hári í löngum, þykkum fléttum, stór, gráblá augu nokkuð hvöss í tilliti.
Ég man líka eftir henni í síðum léreftskjól með stóra svuntu, hvorutveggja heimasaumað og ég man eftir henni með skýluklút og fjósasvuntuna.
- Margrét Ólafsdóttir langamma, móðir Dagnýjar ömmu, var fædd 27. apríl 1839 suður í Meðallandi, elst 14 systkina. Hún fluttist hingað austur 1886 og lagði þar með grundvöllinn að stórum hluta Skógargerðisættarinnar.
Helgi Gíslason eldri á Helgafelli segir fallega frá Margréti, ömmu sinni, í Fellamannabók og Sólrún á Krossi, ömmubarn hennar, skrifar um hana merkilega grein í Múlaþing 1971. Þar segir m.a. að Margrét langamma hafi verið glæsileg kona, einörð og sköruleg, glaðlynd, spaugsöm, hreinlynd og bjartsýn og vel stillt, afkastamikil við alla útivinnu og afburðadugleg og jafnvíg á alla ullarvinnu, listfengur vefari.
Hún eignaðist 13 börn. Af þeim komust 8 til fullorðinsára. Fjórum sinnum lét hún dætur sínar heita Agnes. Tvær lifðu og tvær dóu. Agnes er móðurnafn Páls langafa. Það var ekkert verið að gefast upp við hlutina.
- Ólöf Margrét Helgadóttir, langamma, móðir Gísla afa í Skógargerði, var fædd á Geirólfsstöðum í Skriðdal 15. júní 1853.
Hún fer að búa með Helga langafa hér í Skógargerði 1882 í miklum harðindum og köldum árum. Hún eignaðist 8 börn.
Indriði segir í Skógargerðisbók að Ólöf langamma hafi verið greind kona og vel að sér til munns og handa, skáldmælt og söngvin.
Af myndum að dæma hefur hún einnig verið fríð og falleg kona.
Hún var líka fróðleikskona mikil eins og móðir hennar, Margrét á Geirólfsstöðum, langalangamma mín.
Ég var að fletta Þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar núna á dögunum norður á Langanesi. Þar eru þessar konur á heimildamannaskrá:
Margrét Sigurðardóttir á Geirólfsstöðum.
Margrét Ólafsdóttir, Krossi, Fellum.
Ólöf Helgadóttir, Skógargerði.
Margrét Pálsdóttir frá Fossi á Síðu.
Ólafía Pálsdóttir frá Fossi á Síðu.
Tvær þær síðastnefndu eru systur Dagnýjar í Skógargerði, augljóslega.
Og það er ekkert smáræði sem Sigfús hefur eftir þessum konum. Þar eru merkir draumar, dulrænir atburðir, þulur og kvæði, fróðleikur og speki að ógleymdum hetjusögum af Hallgrími í Sandfelli, hinum mikla ættföður.
Margrét Ólafsdóttir átti gamalt handrit af Vitrun séra Magnúsar á Hörgslandi.
Það er bæði í lausu máli og bundnu og minnir á Jóhannesarguðspjall. Það er í Þjóðsögum Sigfúsar.
Sigfús hefur haft sérstakt dálæti á Margréti á Geirólfsstöðum, nefnir hana alltaf fróðleiks- og gáfukonu og vitnar til hennar a.m.k 17 sinnum í Þjóðsögunum. Þessi lýsing á henni er þar: Margrét Sigurðardóttir á Geirólfsstöðum var einkar vitur kona, fróð, skemmtin og höfðingleg, ekki alls kostar fyrirleitin ef hún vildi hafa sitt fram og hræddist hvorki drauga né valdsmenn. Hún reið um sveitir árið 1903, kom á marga bæi og kvaddi vini sína, reið heim, lagðist þegar og dó – hún Margrét langalangamma.
Ég vil hvetja alla viðstadda til að lesa sér til um allar þessar merku konur og líta í Þjóðsögur Sigfúsar einnig.
Svo enda ég þetta spjall á einni þulu sem höfð er eftir Margréti Pálsdóttur í Þjóðsögunum:
Karl klifraðist upp bratta brekku
bar sauð og kú dauða
hest og hundrað fiska
hvalbein og sjö steina
nafar og nýtt skip
árar og stýri.
Hvar finnur þú þann karl
sem meira getur borið?